Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afkomuspá AGS ekki eins fjarri fjármálaáætlun og virðist við fyrstu sýn

Nýleg spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerir ráð fyrir umtalsvert lakari afkomu hins opinbera en nýframlögð fjármálaáætlun áranna 2025-2029 stefnir að. Skýringuna má m.a. finna í því að AGS tekur ekki tillit til óútfærðra aðhaldsráðstafana.

Í spám sínum, hvort sem er fyrir Ísland eða önnur ríki, er ekki tekið mið af ótilgreindum tekju- og útgjaldaráðstöfunum, líkt og óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun. Að öðru óbreyttu var af þeim sökum ekki við öðru að búast en að spá AGS sýndi lakari afkomu en birtist í fjármálaáætlun. Mikilvægt er að hið opinbera standi við fyrirheit um að útfæra þessar ráðstafanir svo afkoman verði í samræmi við spár fjármálaáætlunar.

Nánar tiltekið gerir spá AGS ráð fyrir 0,9% af VLF lakari afkomu árið 2025 en fjármálaáætlun. Þessi munur endurspeglar þó ekki nema að litlu leyti mismunandi sýn AGS og stjórnvalda á horfur í opinberum fjármálum heldur leiðir að hluta af tæknilegum ástæðum líkt og rakið er að neðan. Þrátt fyrir það er spá AGS ágæt áminning um mikilvægi þess að standa við gerðar áætlanir í opinberum fjármálum.

 

 

Spá AGS nær til stærri hluta hins opinbera en fjármálaáætlun

Spá AGS nær auk þess til breiðari skilgreiningar á hinu opinbera heldur en fjármálaáætlun og skýrir það hluta mismunarins. Fjármálaáætlun nær til A1-hluta ríkissjóðs, sem er jafnan sá hluti sem fjármálareglur laga um opinber fjármál ná til. Spá AGS nær til A-hluta hins opinbera í heild. Spá AGS nær þannig, ólíkt fjármálaáætlun, til afkomu lána- og fjárfestingarsjóða og annarrar starfsemi sem er rekin undir stjórn ríkisins og stendur undir sér með sölu á vöru eða þjónustu, leigu og lánastarfsemi (A2-hluti) ásamt afkomu hlutafélaga sem eru í að meiri hluta í eigu ríkissjóðs en sinna hlutverkum á sviði opinberrar þjónustu (A3-hluti).

Önnur tæknileg atriði sem spá AGS tekur líklega ekki fyllilega mið af

Við þetta bætist að stjórnvöld hafa tekið upp nýjar aðferðir við að meta þann hluta skatttekna sem ekki tekst að innheimta og er því afskrifaður í tekjuspám – þessi liður nefnist afskriftir skattkrafna. Hin nýja aðferð leiðir til minni afskrifta en áður, sem felur í sér að hið opinbera innheimtir hærra hlutfall skattkrafna en áður. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að hliðstæðar breytingar hafi ekki ratað í spá AGS nema með óbeinum hætti og að litlu leyti.

 

Þegar framangreindir þættir eru taldir saman þá stendur eftir að AGS spáir u.þ.b. 0,3% af VLF lakari afkomu hins opinbera en fjármálaáætlun gerir ráð fyrir.

Nánari rýni mismuni á afkomuspám fjármálaáætlunar og AGS sýnir að mest munar um tekjur af sköttum á vöru og þjónustu. Hér undir falla stærstu tekjuöflunaraðgerðir fjármálaáætlunar, sem snúa að ökutækjum, akstri og eldsneyti.

 

Kílómetragjald á fólksbíla er stærsta einstaka aðgerðin á tekjuhlið sem afla mun viðbótartekna á næstu árum. Viðbótartekjur af næsta áfanga kílómetragjalds nema 0,2% af VLF árið 2025. Þær fara vaxandi til loka tímabilsins og mynda mótvægi við minnkandi tekjur á sama tíma af hefðbundnum ökutækjasköttum eins og á jarðefnaeldsneyti. Ekki fæst séð að áhrif þessara aðgerða á tekjur af sköttum á vöru og þjónustu sé að gæta í spá AGS eftir árið 2024 með sambærilegum hætti og í fjármálaáætlun. Áfram verður haldið að fara yfir þessi frávik á milli þessara spáa með sérfræðingum AGS á næstu vikum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum