Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 526/2024-úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 526/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. nóvember 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 16. október 2023, um að synja umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. apríl 2023, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X 2022. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 16. október 2023, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann hefði ekki verið samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 27. nóvember 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. nóvember 2023. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 14. desember 2023 og voru þær kynntar Fæðingarorlofssjóði með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2023. Viðbótargreinargerð barst frá Fæðingarorlofssjóði 21. desember 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er farið fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði úrskurðað greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Tekið er fram að kærandi hafi tilkynnt um töku fæðingarorlofs þann 30. ágúst 2023 og að orlof skyldi hefjast 1. nóvember 2023. Fæðingardagur barns hafi verið X 2022. Á þeim tíma hafi kærandi verið í starfi hjá C og hann hafi undirritað ráðningarsamning þann 1. maí 2021. Kærandi hafi svo ráðið sig til D í mars [2022] og starfað þar frá mars til júlí 2022. Hann hafi svo hafið störf hjá E í september 2022 þar sem hann starfi enn í dag.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ársins 2022 hafi kærandi verið með laun hjá C í janúar og febrúar 2022. Hann hafi verið á launum hjá D frá mars til júlí 2022 og hjá E frá september 2022. Í gögnum málsins liggi fyrir staðfesting D, dags. 30. maí 2023, þess efnis að kærandi hafi verið launamaður hjá félaginu árið 2022 fram til 24. ágúst 2022 og að hann hafi verið í launalausu leyfi í maí 2022. Þá liggi fyrir staðfesting D í tölvupósti, dags. 29. október 2023, um að kærandi hafi unnið í ágúst 2022, frá 1.til 7. ágúst, og að skráðir tímar hafi verið 62,5. Þá sé staðfest af hálfu D að kærandi hafi fengið fyrirframgreidd laun vegna umræddrar vinnu í ágúst og hafi launin vegna ágústmánaðar 2022 verið greidd í júlí 2022. Kærandi bendi einnig á að D hafi greitt iðgjald í lífeyrissjóð í ágúst 2022, sbr. meðfylgjandi yfirlit. Þá liggi einnig fyrir yfirlit yfir þá 62,5 tíma sem kærandi hafi unnið fyrir fyrirtækið í ágúst 2022. Á dagskýrslunni sjáist hvar fjórir starfsmenn hafi unnið dagana sem um ræði og alls hafi verið skráðir 242 tímar að frádregnum átta tímum í matartíma. Greiddir tímar hafi því verið 234. Einn daginn hafi eingöngu starfað þrír starfsmenn og unnir tímar hafi verið 24 þann daginn. Þannig hafi tímar kæranda í heild verið 62,5 (218/4=54,5+8=62,5). Því til viðbótar hafi kærandi unnið frá og með 25. ágúst 2022 hjá núverandi vinnuveitanda, sbr. meðfylgjandi tímaskýrslu.

Kærandi bendi á að hann hafi verið í launalausu leyfi í maí 2022 en samkvæmt bókun um samfellt starf og áunnin réttindi við þágildandi kjarasamning SA og Eflingar, sem sé sá kjarasamningur sem kærandi falli undir, sé með „samfelldu starfi“ í skilningi kjarasamningsins átt við að starfsmaður hafi verið í samfelldu ráðningarsambandi óháð því hvort hann hafi fallið tímabundið af launaskrá. Launalaust tímabil teljist þó ekki hluti ráðningartíma við ávinnslu réttinda, ákveði lög eða kjarasamningar ekki annað, sbr. t.d. lögbundið fæðingarorlof. Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 segi enn fremur að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist meðal annars leyfi starfsmanns, þótt það sé ólaunað að hluta eða öllu leyti.

Sé litið til ágústmánaðar 2022 sjáist að kærandi hafi unnið 62,5 klukkustundir. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 miðist fullt starf starfsmanns við 172 vinnustundir á mánuði. Sé litið til þágildandi kjarasamnings hafi tímafjöldinn verið 173,3. Hvort heldur litið sé til viðmiðs laga nr. 144/2020 eða þágildandi kjarasamnings sé ljóst að kærandi sé yfir 25% viðmiði laga nr. 144/2020.

Það liggi fyrir staðfesting þáverandi vinnuveitanda, D, þess efnis að laun fyrir ágúst 2022 hafi verið fyrirframgreidd í júlí 2022 sem útskýrist hvers vegna engin greiðsla vegna ágúst 2022 hafi komið fram í staðgreiðsluyfirliti fyrir árið 2022. Tímaskýrsla kæranda vegna vinnu í ágúst sýni enn fremur fram á að hann hafi verið að vinna þann mánuðinn. Það að þáverandi vinnuveitandi kæranda hafi kosið að greiða launin fyrir ágúst fyrir fram í júlí eigi ekki að valda því að kærandi verði af réttindum sínum, sér í lagi þar sem gögn máls sýni beinlínis fram á að hann hafi verið að vinna í ágúst 2022.

Hvað varði maí 2022 sé ljóst að kærandi hafi þá verið í launalausu leyfi frá starfi sínu. Líta beri til a. liðar 1. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 hvað maímánuð snerti en líkt og að framan greini falli launalaust leyfi undir hugtakið samfellt ráðningarsamband samkvæmt fyrrgreindri bókun í þágildandi kjarasamningi.

Kærandi geri jafnframt athugasemd við málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs varðandi hina kærðu ákvörðun. Kærandi hafi látið í sjóðnum í té tekjuupplýsingar og útskýringar varðandi ágústmánuð 2022 og enn fremur látið sjóðnum í té staðfestingu þáverandi vinnuveitanda á því að hann hefði verið í launalausu leyfi í maí 2022. Engu að síður hafi Fæðingarorlofssjóður tekið þá ákvörðun að hafna kæranda um greiðslu í stað þess að kanna nánar aðstæður hans. Til dæmis hefði verið lítið mál að kanna nánar umrædda fyrirframgreiðslu vegna vinnu í ágúst 2022 og óska eftir frekari útskýringum og/eða gögnum frá kæranda. Það hafi ekki verið gert. Nú liggi fyrir upplýsingar um að greitt hafi verið iðgjald í lífeyrissjóð vegna launa í ágúst 2022 sem sjóðurinn hefði átt að kanna áður en ákvörðun hafi verið tekin. Kærandi telji málsmeðferð sjóðsins brjóta gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins og þá sér í lagi 10., 12. og 13. gr. laga nr. 37/1993. Kærandi telji hina kærðu ákvörðun fela í sér efnisannmarka sem leiði til ógildingar ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs.

Með vísan til framangreinds og meðfylgjandi gagna málsins sé ljóst að kærandi uppfylli áskilnað laga nr. 144/2020 hvað varði samfellt 25% starfshlutfall í hverjum mánuði síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Hann eigi því rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs er vísað til þess að staðhæfing sjóðsins um að hann hafi ekki verið í launalausu leyfi í maí 2022 og að ekki liggi fyrir skriflegt samkomulag milli kæranda og þáverandi vinnuveitanda hans um það að hann hafi verið í launalausu leyfi á umræddu tímabili sé röng. Kærandi vísi til staðfestingar D, dags. 30. maí 2023, þar sem fram komi að kærandi hafi verið í launalausu leyfi á umræddu tímabili og að hann hafi starfað sem launþegi hjá fyrirtækinu og verið í launalausu leyfi í maí 2022. Einnig liggi fyrir samskonar staðfesting frá fyrirsvarsmanni félagsins, dags. 27. september 2023, þar sem staðfest sé að kærandi hafi verið í launalausu leyfi í maí 2022. Af gögnum máls megi því glöggt ráða að kærandi hafi verið í launalausu leyfi í maí 2022.

Fæðingarorlofssjóður vísi til þess að kærandi geti ekki byggt umræddan rétt á kjarasamningi Eflingar þar sem hann hafi ekki greitt félagsgjöld til félagsins síðan 2017. Þá sé því haldið fram að kærandi hafi ekki tekið laun eftir einstaka samningum stéttarfélaga við atvinnurekendur fyrr en hann hafi hafið störf hjá E 25. ágúst 2022. Það sé rétt að kærandi hafi ekki greitt til Eflingar en hið rétta sé að hann hafi heyrt undir kjarasamning FIT. Í kjarasamningi SA og FIT sé sambærileg bókun og í samningi Eflingar og SA, þ.e. að með samfelldu starfi í skilningi kjarasamninga sé átt við að starfsmaður hafi verið í samfelldu ráðningarsambandi óháð því hvort hann hafi fallið tímabundið af launaskrá. Launalaust tímabil teljist þó ekki hluti ráðningartíma við ávinnslu réttinda, ákveði lög eða kjarasamningar ekki annað, sbr. lögbundið fæðingarorlof. Kærandi byggi því rétt sinn á þeim kjarasamningi. Í meðfylgjandi tölvupósti sé staðfesting á því að greitt hafi verið til FIT af hálfu vinnuveitanda.

Þá sé í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs jafnframt á það bent að greiðsla félagsgjalda til stéttarfélags sé falin atvinnurekendum samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 og að aðild að kjarasamningum sé lögbundin samkvæmt 5. og 6. gr. laga nr. 80/1938. Þá sé á það bent að kjarasamningur bindi ekki aðeins félagsmenn þess stéttarfélags sem hann geri heldur einnig alla þá sem vinni þau störf sem samningurinn taki til á félagssvæðinu. Það sé því svo að jafnvel þó svo kærandi væri ekki félagsmaður í stéttarfélagi eða ef vinnuveitandi hans myndi ekki greiða lögbundin félagsgjöld geti hann samt byggt rétt á hlutaðeigandi kjarasamningi. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skuli laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn taki til. Því skipti ekki máli hvort launamaður sé félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki, né hvort atvinnurekandi sé aðili að samtökum atvinnurekenda eða ekki. Kjarasamningurinn kveði á um lágmarkskjör þessara aðila. Tilgangur þessa ákvæðis sé sá að tryggja launafólki ákveðin lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum og koma í veg fyrir að menn séu þvingaðir til að standa utan stéttarfélaga í sparnaðartilgangi. Þetta ákvæði geri það jafnframt að verkum að ekki sé þörf á félagsaðild að stéttarfélagi, menn njóti kjaranna eftir sem áður. Því sé ekkert samhengi á milli þess að greidd séu félagsgjöld til stéttarfélags og réttinda launþega samkvæmt kjarasamningi líkt og Fæðingarorlofssjóður virðist halda fram.

Varðandi tímabilið 1. til 24. ágúst 2022 hafi kærandi unnið hjá D á tímabilinu 1. til 6. ágúst 2022. Hann hafi unnið 62,5 klukkustundir og uppfylli því áskilnað 1. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 um 25% viðmið, en um þetta sé nánar fjallað í kæru og vísist til þeirra umfjöllunar.

Með vísan til framangreinds, kæru og fylgiskjala málsins sé ljóst að kærandi uppfylli áskilnað laga nr. 144/2020 hvað varði samfellt 25% starfshlutfall í hverjum mánuði síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Hann eigi því rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 25. apríl 2023, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X 2022. Auk umsóknar hafi borist tilkynning um fæðingarorlof, ráðningarsamningar við fyrrum vinnuveitanda, C og D, tímaskýrsla og staðfestingar vinnuveitanda og skýringar kæranda. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám Skattsins og hlutafélagaskrá.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna orðskýringu á starfsmanni en samkvæmt ákvæðinu teljist starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði  samkvæmt 21. gr. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf.

Í 2. mgr. 22. gr. sé síðan talið upp í eftirfarandi sex stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

  1. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  3. sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  4. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  5. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  6. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2022. Ávinnslutímabil kæranda sem starfsmanns sé því frá X 2022 og fram að fæðingardegi barns. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 4. tölul. 4. gr., 1. mgr. 21. gr. og 1. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi þegið laun frá D tímabilin 1. mars 2022 til 30. apríl 2022 og 1. júní 2022 til 31. júlí 2022. Þá liggi fyrir að kærandi hafi starfað hjá E frá og með 25. ágúst 2022 og fram að fæðingu barns. Því sé óumdeilt að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á þessum tímabilum. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði sem starfsmaður hjá D tímabilin 1 til 31. maí og 1. til 24. ágúst 2022.

Með bréfi til kæranda, dags. 16. maí 2023, hafi verið óskað eftir nánari upplýsingum um þátttöku hans á innlendum vinnumarkaði í maí og ágúst 2022. Í kjölfarið hafi borist upplýsingar um starfstímabil kæranda hjá D, dags 30. maí 2023, þar sem segi að kærandi hafi unnið hjá fyrirtækinu árið 2022 fram til 24. ágúst 2022 og að hann hafi verið í launalausu leyfi í maí 2022 og einnig að hann hefði fengið greitt fyrir júlí og ágúst mánuð í einni greiðslu.

Í kjölfarið hafi kæranda verið sent annað bréf, dags. 6. september 2023, þar sem óskað hafi verið eftir afriti af ráðningarsamningi við D og launaseðli vegna júlí 2022. Þann 13. september 2023 hafi kærandi svarað bréfinu þar sem fram komi að ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur við D. Með svarinu hafi fylgt eldri ráðningarsamningur við C sem kærandi hafi starfað hjá til febrúar 2022. Á milli C og D séu engin tengsl samkvæmt hlutafélagaskrá. Þá hafi fylgt afrit af launaseðli fyrir júlí 2022 en samkvæmt honum sé launatímabilið 1. til 31. júlí 2022 og mánaðarlaun skráð sem ein eining.

Þann 25. september 2023 hafi kæranda verið leiðbeint í tölvupósti um það hvað teldist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði. Einnig hafi verið útskýrt fyrir honum hvernig innsend gögn og skýringar vegna D horfðu við tímabilunum 1. til 31. maí og 1. til 24. ágúst 2022. Með tölvupóstinum hafi jafnframt verið óskað eftir tímaskráningum til að geta metið hvort og þá hversu lengi kærandi hefði starfað hjá D í ágúst 2022.

Þann 28. september 2023 hafi borist ráðningarsamningur við D, dags. 1. mars 2022, bréf frá D, dags. 27. september 2023, þar sem segi að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 1. mars til 25. ágúst 2022 en hafi verið í launalausu leyfi í maí og ágúst 2022, og handskrifuð dagskýrsla D fyrir tímabilið 1. til 6. ágúst 2022 um unna vinnu á því tímabili en ekki hvaða starfsmenn um hafi verið að ræða. 

Þann 16. október 2023 hafi kæranda verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði um að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði sem starfsmaður tímabilin 1. til 31. maí og 1. til 24. ágúst 2022 en hann ætti þess í stað rétt á fæðingarstyrk.

Eins og áður segi lúti ágreiningur málsins að því hvort kærandi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði sem starfsmaður hjá D tímabilin 1. til 31. maí og 1. til 24. ágúst 2022.

Kærandi hafi haldið því fram að hann hafi verið í launalausu leyfi í maí 2022. Við mat á því hvort orlof eða leyfi starfsmanns samkvæmt a. lið 2. mgr. 22 gr. laga nr. 144/2020 teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þurfi leyfið að byggja á lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Samkvæmt lögum nr. 30/1987 um orlof ávinni starfsmaður sér tvo orlofsdaga fyrir hvern mánuð í starfi, sbr. 1. mgr. 3. gr. Þar sem kærandi hafi einungis starfað í tvo mánuði hjá D fyrir maí 2022 hafi hann bara áunnið sér fjóra orlofsdaga fyrir maí 2022. Því verði ekki séð að kærandi geti byggt rétt til orlofs eða leyfis eftir 5. maí 2022 á þeim eða öðrum lögum. Kærandi geti heldur ekki byggt rétt til orlofs eða leyfis á þessum tíma á kjarasamningi. Í kæru sé vísað til bókunar í kjarasamningi SA og Eflingar og því haldið fram að kærandi falli undir þann samning. Fyrir liggi staðfesting frá Eflingu, dags. 24. nóvember 2023, um að kærandi hefði ekki greitt til félagsins síðan 2017. Af gögnum málsins verði hvorki séð að kærandi hafi greitt félagsgjald til stéttarfélaga né tekið laun eftir einstaka samningum stéttarfélaga við atvinnurekendur fyrr en hann hafi hafið störf hjá E 25. ágúst 2022. Loks geti kærandi ekki byggt rétt til orlofs eða leyfis á þessum tíma á ráðningarsamningi. Fyrir liggir staðfesting frá kæranda, dags. 13. september 2023, um að ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur milli hans og D. Síðar hafi samt borist ráðningarsamningur milli aðila, dags. 1. mars 2022, sem virðist því hafa verið útbúinn undir rekstri málsins en þrátt fyrir það komi ekkert fram á honum um rétt til launalauss leyfis. Þá virðist heldur ekki hafa verið gert skriflegt samkomulag milli aðila um launalaust leyfi á þessum tíma. 

Varðandi tímabilið 1. til 24. ágúst 2022 hafi kærandi haldið því fram að hann hefði starfað hjá D tímabilið 1. til 6. ágúst 2022. Gögn málsins styðji það hins vegar ekki. Staðgreiðsluskrá Skattsins og launaseðill fyrir júlí 2022 beri ekki annað með sér en að verið sé að greiða kæranda laun vegna júlí 2022. Jafnvel þótt fallist yrði á með kæranda að hann hafi starfað hjá fyrirtækinu þessa daga teldist hann engu að síður ekki hafa verið í samfelldu starfi tímabilið 7. til 24. ágúst 2022. Kærandi geti heldur ekki hafa talist vera í launalausu leyfi tímabilið 1. til 24. ágúst 2022 og þar vísist til umfjöllunar að framan vegna maí 2022 sem eigi við að breyttu breytanda um þessa daga í ágúst 2022.

Í kæru vísi kærandi til greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð sinn í ágúst 2022 til staðfestingar á starfi í ágúst 2022. Í því samhengi sé rétt að taka fram að almennt séu skilagreinar til lífeyrissjóða með gjaldadaga í mánuðinum eftir undanfarandi starfsmánuð. Þannig samsvari greidd iðgjöld þann 22. ágúst 2022 við laun kæranda í júlí 2022 samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og greidd iðgjöld þann 3. ágúst 2022 samvari launum kæranda í júní 2022 samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi þannig skýrt fyrir að á tímabilunum 1. til 31. maí og 1. til 24. ágúst 2022 uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 4. tölul. 4. gr., 1. mgr. 21. gr., 1. mgr. 22. gr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 og því sé ekki annað unnt en að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 22. gr. laganna geti átt við um aðstæður kæranda á þessum tímabilum. Það sé jafnframt mat Fæðingarorlofssjóðs að málið hafi verið fullrannsakað og kærandi hafi haft tækifæri til að skýra sitt mál, koma að gögnum og andmælum eftir því sem við gat átt eins og rakið hafi verið hér að framan áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu.

Með vísan til alls framangreinds telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 26. gr. laga nr. 144/2020.

Í viðbótargreinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði sem starfsmaður hjá D tímabilin 1. til 31. maí og 1. til 24. ágúst 2022. Kærandi hafi annars vegar haldið því fram að hann hafi verið í launalausu leyfi í maí og hins vegar að hann hafi unnið dagana 1.til 6. ágúst og að sú vinna uppfylli áskilnað laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof þannig að kærandi teljist hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði allt tímabilið 1. til 24. ágúst. 

Varðandi maí 2022 virðist óumdeilt að kærandi geti ekki byggt rétt til ólaunaðs orlofs eða leyfis eftir 5. maí á lögum nr. 30/1987 um orlof eða öðrum lögum. Kærandi hafi aftur á móti byggt rétt til ólaunaðs orlofs eða leyfis á kjarasamningi og hafi í því samhengi vísað til sambærilegra bókana í kjarasamningum Eflingar og SA og FIT og SA. Af þessu tilefni þyki rétt að taka fram að bókanirnar kveði ekki á um rétt til ólaunaðs orlofs eða leyfis né geri einstaka ákvæði kjarasamninganna það. Umræddar bókanir fjalli einungis um það að starfsmaður teljist hafa verið í samfelldu ráðningarsambandi óháð því hvort hann hafi fallið tímabundið af launaskrá og að launalaus tímabil teljist ekki hluti ráðningartíma við ávinnslu réttinda, ákveði lög eða kjarasamningar ekki annað, sbr. lögbundið fæðingarorlof. Með því sé meðal annars verið að vísa til 14. gr. laga nr. 144/2020 þar sem kveðið sé á um það að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta. Réttur kæranda til ólaunaðs orlofs eða leyfis verði því ekki byggður á umræddum kjarasamningum.

Þá verði réttur kæranda til ólaunaðs orlofs eða leyfis ekki byggður á ráðningarsamningi við D en fyrir liggi að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila. Undir rekstri málsins virðist þó hafa verið útbúinn ráðningarsamningur milli aðilanna en í honum sé ekkert fjallað um rétt til ólaunaðs orlofs eða leyfis.

Loks liggi fyrir að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur eða samkomulag milli kæranda og D um ólaunað orlof eða leyfi um það leyti sem það eigi að hafa verið tekið í maí 2022. Breyti þar engu um yfirlýsingar sem hafi verið gefnar út ári síðar eða 30. maí og 27. september 2023 í kjölfar þess að kæranda hafi verið gefið færi á að leggja fram gögn sem staðfest gætu ólaunuð orlof eða leyfi, enda fái þær ekki stoð í öðrum gögnum málsins.

Varðandi athugasemd kæranda um að hann hafi unnið daganga 1. til 6. ágúst 2022 og að sú vinna uppfylli áskilnað laga nr. 144/2020 þannig að kærandi teljist hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði til 24. sama mánaðar vísist til umfjöllunar Fæðingarorlofssjóðs þar um í greinargerð, dags. 24. nóvember 2023. Að öðru leyti vísist einnig til sömu greinargerðar.     

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. október 2023, um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um rétt foreldris til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr., og því geti verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum.

Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf. Þá teljast enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þau tilvik sem talin eru upp í 2. mgr. 22. gr. laganna en ákvæðið er svohljóðandi:

  1. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  3. sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga um sorgarleyfi eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Vinnumálastofnun, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  4. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  5. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,
  6. sá tími sem foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Barn kæranda fæddist  2022. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 21. gr. laga nr. 144/2020 er því frá X 2022 og fram að fæðingardegi barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili í skilningi 22. gr. laganna. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu 1. til 31. maí 2022 og 1. til 24. ágúst 2022 en óumdeilt er að kærandi var í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Kærandi byggir á því að hann hafi verið í launalausu leyfi frá störfum hjá D í maí 2022, sbr. a. lið 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020, og að hann hafi unnið hjá fyrirtækinu í 62,5 klukkustundir á tímabilinu 1. til 6. ágúst 2022 sem uppfylli áskilnað 1. mgr. 22. gr. laganna um 25% viðmið. Þá kemur fram í tölvupósti frá fyrirtækinu, dags. 29. október 2023, að kærandi hafi verið í launalausu leyfi á tímabilinu 8. til 25. ágúst 2022.

Kemur þá til skoðunar hvort tilgreint launalaust leyfi kæranda sé á grundvelli laga, kjarasamnings eða ráðningarsamnings eins skilyrt er í a. lið 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020. 

Orlofsréttur launafólks byggist á lögum nr. 30/1987 um orlof og kjarasamningum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. orlofslaga er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl og orlof skal vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá C frá 1. maí 2021 og út febrúar 2022. Kærandi hóf störf hjá D í mars 2022 og óumdeilt er að kærandi var þar í fullu starfi í mars og apríl 2022. Kærandi var því í starfi heilt orlofsár og hafði unnið sér inn rétt til orlofstöku í 24 daga á tímabilinu 2. maí til 15. september 2022, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987. Ljóst er að það tímabil sem kærandi kveðst hafa verið í launalausu leyfi er umfram þá daga og því getur leyfið ekki grundvallast á lögum nr. 30/1987.

Í kjarasamningum getur verið kveðið á um betri rétt til orlofstöku en í orlofslögunum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Orlofslögin kveða þannig á um lágmarksrétt. Í 4. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, sem var í gildi til 1. nóvember 2022, er fjallað um orlof. Þar segir í kafla 4.1 að lágmarksorlof skuli vera 24 dagar. Um orlofsauka er fjallað í kafla 4.3 en samkvæmt honum getur starfsmaður mest átt rétt á 30 virkum dögum í orlof, allt eftir menntun og starfsreynslu. Tímabilið sem kærandi kveðst hafa verið í launalausu leyfi spannar 34 virka daga og getur því ekki grundvallast á þeim kjarasamningi sem hann heyrði undir.

Hvað varðar launalaust leyfi á grundvelli ráðningarsamnings er ljóst að það á ekki við í tilviki kæranda þar sem ekki lá fyrir skriflegur ráðningarsamningur þegar hann starfaði hjá D.    

Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 21. gr. laga nr. 144/2020 um að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns, en ekkert hefur komið fram í málinu um að aðrir stafliðir 2. mgr. 22. gr. laganna geti átt við um kæranda á því tímabili sem deilt er um.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóð um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr sjóðnum er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 16. október 2023, um að synja umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum